Fótbolti

FIFA leyfir Laporte að spila fyrir Spán

Sindri Sverrisson skrifar
Aymeric Laporte hefur verið sigursæll með liði Manchester City.
Aymeric Laporte hefur verið sigursæll með liði Manchester City. Getty/Sebastian Frej

Aymeric Laporte, sem á að baki yfir 50 leiki fyrir yngri landslið Frakklands, má spila með Spáni á Evrópumótinu í fótbolta í sumar.

FIFA hefur nú staðfest að Laporte sé gjaldgengur með liði Spánar en hann fékk spænskan ríkisborgararétt fyrr í þessari viku. Luis Enrique getur því valið hann í vináttulandsleikina við Portúgal og Litáen í byrjun júní – síðustu leikina fyrir EM þar sem Spánn leikur í riðli með Svíþjóð, Póllandi og Slóvakíu.

Laporte er 26 ára gamall og miðvörður nýkrýndra Englandsmeistara Manchester City sem hann hefur unnið þrjá Englandsmeistaratitla með. Hann hefur hins vegar engan A-landsleik spilað fyrir Frakkland en það er ein forsenda þess að hann má nú spila fyrir Spán.

Laporte er frá Agen í Frakklandi en þegar hann var 16 ára gamall flutti hann til Spánar og gekk í raðir Athletic Bilbao. Frá Bilbao fór hann til Manchester í ársbyrjun 2018.

Spánverjar eru ekki allt of vel staddir hvað miðverði varðar og því vel hugsanlegt að Laporte spili fyrir Spán á EM. Sergio Ramos hefur verið mikið meiddur og Gerard Pique setti landsliðsskóna upp á hillu eftir HM 2018. Luis Enrique hefur verið að prófa menn eins og Diego Llorente, Inigo Martinez, Eric Garcia og Pau Torres í síðustu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×