Fótbolti

Móðir Cristiano Ron­aldo vill að strákurinn spili með Sporting á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar hér einu af hundrað mörkum sínum fyrir Juventus.
Cristiano Ronaldo fagnar hér einu af hundrað mörkum sínum fyrir Juventus. EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Dolores Aveiro, móðir Cristiano Ronaldo, hefur sterkar skoðanir á því hvað strákurinn sinn eigi að gera næst.

Mikið er rætt og skrifað um framtíð knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo en það þykir líklegt að hann yfirgefi Juventus í sumar þrátt fyrir að eiga ár eftir af samningi sínum við ítalska félagið.

Cristiano Ronaldo skoraði sitt hundraðasta mark fyrir Juventus í 3-1 sigri á miðvikudagskvöldið en liðið er enn í fimmta sæti sem myndi þýða að Juve yrði ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Sporting, fyrsta meistaraflokksfélagið hans Ronaldo, verður aftur á móti í Meistaradeildinni eftir að liðið tryggði sér í vikunni portúgalska meistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 2002. Annaðhvort Porto eða Benfica höfðu orðið meistarar í nítján ár samfellt.

Frú Dolores Aveiro er mikill stuðningsmaður Sporting og í sigurvímunni lofaði hún stuðningsmönnunum að hún myndi reyna að sannfæra soninn að koma heim til Sporting.

„Ég mun tala við hann [Cristiano] um að koma til baka,“ sagði Dolores Aveiro af svölunum sínum.

„Á næsta ári þá mun hann spila á Alvalade [Heimavöllur Sporting],“ sagði Dolores við mikinn fönguð stuðningsmannanna.

Hinn 36 ára gamli Ronaldo hefur verið orðaður við franska stórliðið Paris Saint Germain og einhverjir stuðningsmenn Manchester United hefur dreymt um að hann kæmi aftur norður til Manchester.

Þetta útspil móðir hans er athyglisvert innlegg í umræðuna um framtíð Ronaldo því flestir hlusta nú á mæður sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×