Fótbolti

Hrein­skilinn Zi­da­ne veit ekki hvort Ramos verði á­fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zidane og Ramos fagna spænska meistaratitlinum á síðustu leiktíð.
Zidane og Ramos fagna spænska meistaratitlinum á síðustu leiktíð. Denis Doyle/Getty Images)

Zinedine Zidane, stjóri Real Madrid, veit ekki hvort að Sergio Ramos, fyrirliði Madrídarliðsins, verði í herbúðum félagsins á næstu leiktíð.

Miðvörðurinn er samningslaus í sumar en hann er 34 ára gamall. Hann hefur spilað með liðinu frá árinu 2005 og unnið fjöldann allan af titlum. Nú gæti tími hans hjá Madríd verið á enda.

„Ég vil vera hreinskilin og ég verð að segja að ég veit ekki hvað mun gerast með hann,“ sagði Zidane um stöðuna á þessum sigursæla varnarmanni.

„Við viljum halda honum hérna. Hann er mikilvægur leikmaður og ég vil halda honum, það er það eina sem ég get sagt sem þjálfari liðsins.“

Cristiano Ronaldo hefur verið orðaður við endurkomu til Real. Þetta hafði Frakkinn að segja um Cristiano og hans endurkomu:

„Allir vita hvað Cristiano þýðir fyrir Madríd, hvað hann hefur afrekað hérna, og hvernig við hugsum um hann. Það sem hann afrekaði hér var magnað,“ sagði Zidane um Ronaldo.

„En hann er leikmaður Juventus núna og ég get ekki sagt meira en það. Það hefur verið sagt mikið en við þurfum að bera virðingu.“

Real Madrid spilar við Elche klukkan 15.05 í dag. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×