Fótbolti

41 árs gamall markvörður C-deildarliðs stoppaði risana í Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Alcoyano fagna sigri á Real Madrid í gær og þar á meðal er markvörðurinn José Juan Figueras sem átti magnaðan leik í gærkvöldi.
Leikmenn Alcoyano fagna sigri á Real Madrid í gær og þar á meðal er markvörðurinn José Juan Figueras sem átti magnaðan leik í gærkvöldi. Getty/Quality Sport Images

Ein óvæntasta hetja vikunnar er örugglega spænski markvörðurinn José Juan Figueras.

Figueras og félagar í spænska C-deildarliðinu Alcoyano slógu í gær risana í Real Madrid út spænska bikarnum.

Þrátt fyrir að enda leikinn tíu á móti ellefu stórstjörnum Real Madrid þá tókst leikmönnum Alcoyano að vinna 2-1 sigur.

José Juan Figueras, markvörður Alcoyano, er 41 árs gamall en hann varði alls tíu skot frá sóknarmönnum Real Madrid í gær.

Það er ekki bara aldur Figueras sem gerði afrek hans enn óvæntara heldur einnig sú staðreynd að á meira en tveggja áratuga ferli hans á Spáni þá hefur hann aðeins spilað enn leik í efstu deild.

Eder Militao kom Real Madrid yfir í leiknum en Jose Solbes jafnaði og tryggði Alcoyano framlengingu. Ramon Lopez var rekinn af velli í framlengingunni áður en Juanan skoraði sigurmarkið á 115. mínútu.

„Þetta er draumur. Við höfðum engu að tapa. Þegar þúsund hlutir falla með þér þá geta svona hlutir gerst,“ sagði Juanan eftir leikinn. Hann skoraði markið mikilvæga en það var markvörðurinn José Juan Figueras sem var hetja liðsins.

Figueras lék sinn fyrsta leik með Valladolid B í spænsku C-deildinni árið 1999. Eini leikur hans í efstu deild var leikur með Celta de Vigo á 2002-03 tímabilinu. Þetta er annað tímabil hans með Alcoyano liðinu.

„Ég tek fulla ábyrgð á þessu og það sem verður að gerast það mun gerast,“ sagði Zinedine Zidane, þjálfari Real Madrid, eftir leikinn.

Zidane hefur verið harðlega gagnrýndur í spænsku blöðunum en um síðustu helgi mistókst Real Madrid að komast í úrslitaleik spænska Ofurbikarsins eftir tap á móti Athletic Bilbao í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×