Fótbolti

Telja afar ólíklegt að Hamrén haldi áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén á hliðarlínunni á Puskás vellinum í gær.
Erik Hamrén á hliðarlínunni á Puskás vellinum í gær. getty/Laszlo Szirtesi

Ólíklegt er að Erik Hamrén haldi áfram sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Þetta segja Bjarni Guðjónsson og Atli Viðar Björnsson.

Ísland tapaði á grátlegan hátt fyrir Ungverjalandi í gær, 2-1, og missti þar með af tækifærinu til að komast á EM á næsta ári. Ísland mætir Danmörku og Englandi í síðustu tveimur leikjum sínum í Þjóðadeildinni á sunnudaginn og miðvikudaginn. Það gætu verið síðustu leikir Hamréns með íslenska landsliðið en samningur Svíans við KSÍ rennur út í árslok.

„Það kæmi mér á óvart,“ sagði Bjarni er Kjartan Atli Kjartansson spurði hann hvort hann héldi að Hamrén yrði áfram landsliðsþjálfari.

„Mér finnst hans látbragð hafi verið á þá leið að hann hafi viljað fara með liðið í úrslitakeppnina og taka stöðuna eftir það. Þegar það mistekst finnst mér það afar ólíklegt að hann verði áfram.“

Atli Viðar tók í sama streng og Bjarni. „Mér finnst ekkert í hans ákvörðunum benda til þess að hann sé að hugsa lengra en að koma liðinu á EM, ef ekki er bara einhver annar sem tekur við og fer í þá nauðsynlegu endurnýjun sem bíður.“

Hamrén tók við íslenska landsliðinu af Heimi Hallgrímssyni haustið 2018. Hann hefur stýrt Íslandi í 22 leikjum. Sjö þeirra hafa unnist, þrír endað með jafntefli og tólf tapast.

Klippa: Umræða um framtíð Hamréns

Tengdar fréttir

Hetjan gegn Íslandi varð Ungverji í fyrra

Loic Nego kom Ungverjalandi til bjargar í gærkvöld með jöfnunarmarki undir lokin gegn Íslandi. Ef leikurinn hefði farið fram í mars, líkt og til stóð, hefði Nego ekki mátt spila.

Hannes: Aldrei verið jafn sorg­mæddur eftir tap

„Ég held að ég hafi aldrei verið jafn sorgmæddur eftir tap á fótboltaleik,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, eftir tapið grátlega í Ungverjalandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×