Fótbolti

Missti sig yfir Messi og líkti honum við Harry Potter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi á ferðinni með boltann í sigri Barcelona á Juventus í gær.
Lionel Messi á ferðinni með boltann í sigri Barcelona á Juventus í gær. Getty/Valerio Pennicino

Ítalska knattspyrnugoðsögnin Christian Vieri var í miklum ham eftir sigur Barcelona á Juventus í Meistaradeildinni í gær og hann fór aðallega á flug í lýsingu sinni á snilli LIonel Messi.

Lionel Messi var með mark og glæsilega stoðsendingu þegar Barcelona vann 2-0 útisigur á Juventus í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Christian Vieri er fyrrum markakóngur bæði í ítölsku deildinni og með ítalska landsliðinu en hann starfar nú sem knattspyrnusérfræðingur hjá CBS Sports.

Vieri fór mikinn í að lýsa aðdáun sinni á argentínska snillingnum Lionel Messi eftir leikinn í gær.

„Barcelona liðið var stórkostlegt í þessum leik. Þetta var aldrei spurning. Þeir hefðu getað skorað sex eða sjö mörk auðveldlega. Þeir spiluðu frábærlega,“ sagði Christian Vieri.

„Messi er galdramaður. Hann er Harry Potter fótboltans og þegar hann hættir að spila þá ætla ég að henda sjónvarpinu mínu,“ sagði Vieri.

„Ég mun bara horfa á Netflix í staðinn. Þannig er staðan. Þegar Messi hættir þá er ekkert til að horfa á sjónvarpinu,“ sagði Vieri.

Barcelona kom sterkt til baka eftir 3-1 tap á móti Real Madrid í El Clasico um helgina.

„Ég veit ekki hvernig þeir fóru af því að tapa á móti Real Madrid en eftir að hafa horft á þá á móti Juventus þá finnst mér að þeir eigi ekki að tapa aftur á þessu ári. Það er ómögulegt ef þeir spila svona,“ sagði Vieri.

„Enginn leikur er eins en Barcelona liðið sem ég sá er ótrúlegt lið. Þegar þú ert með svona tíu þá er allt hægt. Það er leiðinlegt að það voru engir áhorfendur til að horfa á leikinn því stuðningsmennirnir eiga skilið að sjá þetta lið spila,“ sagði Vieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×