Fótbolti

Suárez grét vegna meðferðar Barcelona á sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Sambandsslit“ Luis Suárez og Barcelona voru dramatísk í meira lagi.
„Sambandsslit“ Luis Suárez og Barcelona voru dramatísk í meira lagi. getty/Michael Regan

Luis Suárez er ósáttur við viðskilnaðinn frá Barcelona og sár hvernig félagið kom fram við sig.

Ronald Koeman, nýr knattspyrnustjóri Barcelona, taldi sig ekki hafa not fyrir Suárez og að honum væri frjálst að yfirgefa félagið. Suárez gekk í raðir Atlético Madrid í síðasta mánuði.

„Það var hægt að fara aðra leið að því að segja mér að þeir vildu gera breytingar. Hvernig þetta var gert og tilfinningin að það væri verið sparka þér út sveið sárast,“ sagði Suárez.

„Dagarnir áður en ég fór til Atlético voru mjög erfiðir. Ég grét mikið vegna alls þess sem ég var að ganga í gegnum.“

Lionel Messi og Neymar, fyrrverandi samherjar Suárez hjá Barcelona, gagnrýndu einnig hvernig félagið stóð að viðskilnaðinum við úrúgvæska framherjann.

Suárez gekk í raðir Barcelona frá Liverpool 2014. Hann skoraði 195 mörk fyrir Barcelona og er þriðji markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Suárez varð fjórum sinnum Spánarmeistari með Barcelona, fjórum sinnum bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

Suárez skoraði fyrra mark Úrúgvæ í 2-1 sigri á Síle 1. umferð Suður-Ameríkuriðilsins í undankeppni HM í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×