Fótbolti

Sportpakkinn: Zidane sagðist vera með dásamlegt lið eftir sigurinn á Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Zinédines Zidane eru með eins stigs forskot á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn í El Clásico.
Strákarnir hans Zinédines Zidane eru með eins stigs forskot á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn í El Clásico. vísir/getty

Zinédine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, sagðist vera með dásámlegt lið eftir sigurinn á Barcelona, 2-0, í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Guðjón Guðmundsson fór yfir El Clásico.

Barcelona var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik á Santiago Bernabéu í gær og Real Madrid gat þakkað markverðinum Thibaut Courtois fyrir að staðan var markalaus í hálfleik.

Í seinni hálfleik stigu heimamenn á bensíngjöfina og náðu yfirhöndinni. Þeir fengu nokkur ákjósanleg færi áður en Vinícius Júnior kom þeim yfir á 71. mínútu með sínu fjórða marki á tímabilinu.

Í uppbótartíma gulltryggði Mariano Díaz svo sigur Real Madrid þegar hann skoraði mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Þetta var fyrsti deildarleikur hans á tímabilinu.

Með sigrinum komst Real Madrid upp fyrir Barcelona á topp spænsku deildarinnar. Einu stigi munar á liðunum.

Zidane var ánægður með hvernig sínir menn svöruðu fyrir sig eftir tapið fyrir Manchester City í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn var.

„Þetta hefur verið erfitt en við undirbjuggum okkur mjög vel fyrir þennan leik. Það sýnir að leikmennirnir eru einbeittir. Stundum verðuðu að sætta þig við að það koma erfiðir leikir. Við spiluðum vel í 78 mínútur gegn City en töpuðum,“ sagði Zidane.

„Í leiknum í dag [í gær] lékum við vel frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Við verðum að halda áfram að gera það sem við trúum á. Þetta verður erfitt, það er ljóst, en ég er með dásámlegt lið. Ég er með bestu leikmennina og við verðum að sýna það hverjum einasta leik sem við spilum.“

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Real Madrid vann El Clásico

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×