Innlent

Kviknaði í skipi í Njarðvíkurhöfn

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Njarðvíkurhöfn. Myndin er úr safni og sést hér ekki skipið sem um ræðir.
Frá Njarðvíkurhöfn. Myndin er úr safni og sést hér ekki skipið sem um ræðir. Vísir/Vilhelm

Eldur kom upp í Langanesi GK525 í Njarðvíkurhöfn í dag. Að sögn Brunavarna Suðurnesja varð vegfarandi var við reyk og hringdi í Neyðarlínuna. Skipið var mannlaust þegar eldurinn kom upp.

Tíu manna lið Brunavarna Suðurnesja fór á vettvang og var þónokkur eldur og mikill hiti í bátnum þegar komið var að. Eldurinn kom upp í stakkageymslu Langaness stjórnborðamegin. Slökkvistarf gekk vel og náðist að ráða niðurlögum eldsins.

Verið er að reykræsta og rannsaka hvort frekari eldglæður leynist um borð í skipinu. Ekki liggur ljóst fyrir hversu miklum skemmdum skipið varð fyrir vegna eldsvoðans en mikill reykur fylgdi eldinum.

Á sama tíma voru liðsmenn Brunavarna í tvígang kallaðir út vegna sjúkraflutninga og var því neyðst til þess að kalla út auka mannafla til að sinna útköllum dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×