Fótbolti

Af hverju spilar Real Madrid á æfingasvæðinu?

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Real Madrid byrjuðu á sigri á Alfredo di Stefano vellinum í gær.
Leikmenn Real Madrid byrjuðu á sigri á Alfredo di Stefano vellinum í gær. VÍSIR/GETTY

Real Madrid berst við Barcelona um spænska meistaratitilinn í fótbolta í sumar en mun leika sína heimaleiki við fábrotnar aðstæður, miðað við Santiago Bernabeu leikvanginn, á æfingasvæði félagsins.

Real Madrid vann 3-1 heimasigur á Eibar í gær þegar liðið mætti aftur til leiks eftir hlé frá því í mars vegna kórónuveirufaraldursins. Í þetta sinn lék liðið hins vegar á Alfredo di Stefano-vellinum, á æfingasvæði félagsins.

Miklar endurbætur hófust á Santiago Bernabeu fyrr á þessari leiktíð og úr því að engir áhorfendur mega vera á leikjum í sumar ákváðu forráðamenn Real Madrid að nýta tímann núna til að hraða þeim framkvæmdum. Kollegar þeirra hjá Atlético Madrid buðust til að lána heimavöll sinn á meðan en Real Madrid kaus frekar að spila á sínu æfingasvæði.

Allar aðstæður eru hinar bestu á Alfredo di Stefano-vellinum, þar sem ungmennalið Real Madrid spilar sína leiki fyrir framan allt að 6.000 manns. Búið er að koma upp aðstöðu fyrir myndbandsdómgæslu og búningsklefar, upphitunarsvæði og æfingaaðstaða er samkvæmt AS betri en á leikvöngum margra af betri liðum Spánar.

Áætlað er að framkvæmdum við Santiago Bernabeu ljúki sumarið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×