Fótbolti

Víti á síðustu stundu tryggði tíu mönnum Levante stig í Valencia

Sindri Sverrisson skrifar
Goncalo Guedes og félagar fengu bara eitt stig í kvöld.
Goncalo Guedes og félagar fengu bara eitt stig í kvöld. VÍSIR/GETTY

Það var mikil dramatík í lokin á leik Valencia og Levante sem skildu jöfn, 1-1, í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Granada vann Getafe, 2-1.

Ekkert mark var skorað í Valencia fyrr en að komið var fram á 89. mínútu. Levante hafði misst Roger af velli með rautt spjald korteri áður og Valencia virtist því með pálmann í höndunum þegar Rodrigo skoraði eftir fyrirgjöf José Luis Gaya.

Tíu leikmenn Levante náðu hins vegar að jafna metin, þegar Gonzalo Melero skoraði úr vítaspyrnu eftir að myndbandsdómgæsla leiddi til þess að víti var dæmt seint í uppbótartímanum. Brotið átti sér stað á vítateigslínunni og það tók drykklanga stund fyrir dómarann að ákveða sig.

Granada lenti undir gegn Getafe en jafnaði metin með sjálfsmarki og Carlos Fernández skoraði svo sigurmarkið á 79. mínútu.

Getafe varð því af mikilvægum stigum í baráttunni um Evrópusæti en liðið er í 5. sæti með 46 stig. Valencia er í 7. sæti með 43 stig, en liðin í 5.-6. sæti komast í Evrópudeildina. Granada hefur blandað sér í baráttuna um þau sæti og er með 41 stig í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×