Fótbolti

Hazard í baráttu við ísskápinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tímabilið hefur ekki verið upp á marga fiska hjá Hazard sem hefur glímt við mikil meiðsli.
Tímabilið hefur ekki verið upp á marga fiska hjá Hazard sem hefur glímt við mikil meiðsli. vísir/getty

Eden Hazard, ein af stjörnum Real Madrid, segir að það sé erfitt að láta ísskápinn vera á tímum kórónuveirunnar en hann eins og aðrir stjörnur liðsins sem og aðrir íbúar Spánar eiga að halda sig heima.

Útgöngubann ríkir á Spáni og mun ríkja eitthvað áfram en Spánn er eitt af þeim löndum sem hefur farið sem verst út úr kórónuveirunni. Hazard og félagar þurfa því að halda sig heima allan daginn.

Hazard hafði, áður en allt var sett á ís, verið í vandræðum með ökklameiðsla en hann æfir nú heima fyrir og reynir að koma sér á beinu brautina aftur.

„Þetta er erfitt fyrir mig. Ég reyni að borða ekki of mikið og reyni að láta það eiga sig að fara of oft í ísskápinn en það er erfitt,“ sagði Hazard í samtali við RTBF. Marca greinir frá.

„Ég hitti sjúkraþjálfarann á netinu. Hann getur ekki komið hingað lengur því hann veiktist og verður að vera heima. Við byrjuðum á þessu fyrir tíu dögum og hann sendir mér myndbönd.“

„Ég vinn að því að styrkja ökklann og geri hvað sem ég get hérna heima,“ sagði hinn 29 ára Hazard sem hefur leikið fimmtán leiki með Real frá því að hann kom frá Chelsea síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×