Fótbolti

Fótboltamaður skrifaði undir níu ára samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Inaki Williams.
Inaki Williams. Getty/ Juan Manuel Serrano
Knattspyrnumaðurinn Inaki Williams hefur skrifað undir mjög sérstakan samning hjá spænska félaginu Athletic Bilbao.

Baskafélagið Athletic Bilbao samdi við þennan 25 ára framherja til ársins 2028 eða í heil níu ár.

Það er möguleiki að kaupa upp samning Inaki Williams en það mun kosta 135 milljónir evra.

Inaki Williams er þarna að skrifa undir einn lengsta samning fótboltasögunnar en hann slær þó ekki út tíu ára samning Brasilíumannsins Denilson við Real Betis árið 1998.





„Vonandi bíða glæsilegir tímar því ég vil gera allt í mínu valdi til að gera klúbbinn stærri,“ sagði Inaki Williams á blaðamannafundi í dag þegar nýr samningur hans var kynntur.

„Þetta er mitt heimili og allt sem mig vantar er hér. Klúbburinn hefur alltaf veðjað á mig og hann hefur gefið mér allt. Hér á ég heima,“ sagði Williams.

Williams lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Athletic Bilbao árið 2014 en hann var orðaður við enska félagið Manchester United í sumar.

Inaki Williams skoraði 12 mörk í 38 leikjum með Athletic Bilbao í spænsku deildinni á síðustu leiktíð og er samtals með 48 mörk í 204 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×