Fótbolti

Ekkert til í því að Messi sé mögulega að fara keppa við Ísland í næstu Þjóðadeild UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi í leiknum á móti Íslandi á HM 2018. Fimm íslenskir leikmenn sækja að honum.
Lionel Messi í leiknum á móti Íslandi á HM 2018. Fimm íslenskir leikmenn sækja að honum. Getty/Reinaldo Coddou H
Argentínska landsliðið átti að hafa hótað því að flýja suðurameríska fótboltann og keppa í næstu Þjóðadeild UEFA. Svo hávær var orðrómurinn að Knattspyrnusamband Evrópu taldi sig þurfa að gefa út yfirlýsingu vegna málsins.

Upphaf þessa undarlega máls má rekja til óánægju Argentínumanna með dómgæsluna í undanúrslitaleik sínum á móti Brasilíu í Copa America 2019.

Sá sem fór lengst í gagnrýni sinni var sjálfur Lionel Messi sem missti sig eftir leikinn og skrópaði síðan í verðlaunaafhendinguna eftir að hafa verið rekinn af velli í leiknum um þriðja sætið.

Lionel Messi gæti misst af næstu tveimur árum með landsliðinu verði hann dæmdur í bann hjá knattspyrnusambandi Suður-Ameríku fyrir harða og óvæga gagnrýni sína á dómara.





Argentínska landsliðið er ekki í góðum málum án Messi og þetta mögulega bann Messi ýtti undir pælingar í argentínskum fjölmiðlum um að landslið þjóðarinnar myndi hætti við að keppa í næsta Copa America og fengi frekar að vera með í næstu Þjóðadeild Evrópu.

Katar og Japan tóku þátt í Copa America í ár og það er í raun ekkert sem stendur í vegi fyrir að það gætu einnig verið boðslið í Þjóðadeild Evrópu. Eða svo héldu Argentínumenn.

Knattspyrnusamband Evrópu vildi kæfa þessar raddir frá Argentínu í fæðingu og sendi strax frá sér yfirlýsingu. Þar kemur fram að UEFA hafi aldrei boðið Argentínu sæti í Þjóðadeildinni og að sambandið muni heldur aldrei gera slíkt.

Íslenska landsliðið er því ekkert að fara að keppa við Lionel Messi og félaga í Þjóðadeildinnni 2020-21.

Yfirlýsing UEFA er hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×