Fótbolti

Fjórir leikmenn Spurs mæta sínu gamla félagi í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Belgarnir Vertonghen og Alderweireld að módelstörfum.
Belgarnir Vertonghen og Alderweireld að módelstörfum. vísir/getty
Tottenham Hotspur tekur á móti Ajax í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Fjórir fyrrverandi leikmenn Ajax eru í herbúðum Tottenham og líklegt er að þeir byrji allir inn á í kvöld. Þetta eru þeir Jan Vertonghen, Christian Eriksen, Toby Alderweireld og Davinson Sánchez.



Tottenham keypti Vertonghen, Eriksen og Sánchez frá Ajax en Alderweireld var hjá Atlético Madrid og Southampton áður en hann fór til Spurs.

Tottenham keypti Vertonghen frá Ajax 2012. Síðan þá hefur hann leikið 282 leiki fyrir Lundúnaliðið og skorað tíu mörk.

Eriksen kom til Spurs frá Ajax 2013. Sá danski hefur leikið 271 leik fyrir Tottenham og skorað 65 mörk. Á þessu tímabili hefur hann skorað níu mörk í 45 leikjum í öllum keppnum.

Tottenham keypti Sánchez frá Ajax 2017. Kólumbíumaðurinn er dýrasti leikmaður í sögu Spurs en félagið borgaði um 42 milljónir punda fyrir hann. Sánchez hefur leikið 75 leiki fyrir Tottenham og skorað eitt mark.

Atlético Madrid keypti Alderweireld frá Ajax 2013. Hann varð Spánarmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili en var svo lánaður til Southampton. Þaðan fór Alderweireld svo til Tottenham. Belginn hefur leikið 159 leiki fyrir Spurs og skorað sex mörk.

Leikur Tottenham og Ajax hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Eriksen varð þrívegis hollenskur meistari með Ajax.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×