Fótbolti

Aldrei unnið Barcelona á Nývangi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frægasta mark Ole Gunnars Solskjær kom á Nývangi. Núna er verkefni hans að stýra sínum mönnum til sigurs á þessum sögufræga leikvangi til að Manchester United komist áfram í Meistaradeild Evrópu.
Frægasta mark Ole Gunnars Solskjær kom á Nývangi. Núna er verkefni hans að stýra sínum mönnum til sigurs á þessum sögufræga leikvangi til að Manchester United komist áfram í Meistaradeild Evrópu. vísir/getty
Til að komast áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þarf Manchester United að gera svolítið sem liðið hefur aldrei gert áður; vinna Barcelona á Nývangi.

United hefur unnið leik á Nývangi í Barcelona og þeirri stund gleyma stuðningsmenn liðsins aldrei. United tryggði sér þá Evrópumeistaratitilinn með því að skora tvö mörk í uppbótartíma gegn Bayern München þann 26. maí 1999.

Ole Gunnar Solskjær skoraði sigurmark United í umræddum leik. Tuttugu árum síðar er hann knattspyrnustjóri United sem þarf að vinna Barcelona á Nývangi til að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn síðan 2011. Staða United er snúin þar sem Barcelona vann fyrri leikinn á Old Trafford, 0-1.



United hefur fjórum sinnum áður mætt Barcelona á Nývangi. Tveir leikir töpuðust og tveir enduðu með jafntefli.

United og Barcelona mættust á Nývangi í fyrri leiknum í 8-liða úrslitum Evrópukeppni bikarhafa 1984. Börsungar unnu leikinn 2-0 en United-menn náðu fram hefndum í seinni leiknum á Old Trafford sem þeir unnu 3-0. Bryan Robson skoraði tvö marka United og í leikslok báru stuðningsmenn liðsins hann af velli.

Barcelona tók United í kennslustund þegar liðin mættust á Nývangi í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 1994-95 og vann 4-0 sigur. Hristo Stoichkov (2), Romário og Albert Ferrer skoruðu mörk Börsunga.

Tímabilið 1998-99 mættust United og Barcelona aftur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Báðir leikirnir fóru 3-3. Í leiknum á Nývangi náði samvinna framherjaparsins Andys Cole og Dwight Yorke nýjum hæðum en þeir skoruðu öll þrjú mörk United. Brasilíumennirnir Rivaldo (2) og Sonny Anderson skoruðu mörk Börsunga.

United og Barcelona mættust svo í undanúrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2007-08. Cristiano Ronaldo klúðraði vítaspyrnu í fyrri leiknum á Nývangi sem endaði með markalausu jafntefli. United vann seinni leikinn á Old Trafford, 1-0, með marki Pauls Scholes.

United og Barcelona hafa alls mæst tólf sinnum. Barcelona hefur unnið fimm leiki, United þrjá og fjórum sinnum hefur orðið jafntefli.



Leikur Barcelona og Manchester United hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×