Fótbolti

Besti árangur ensku liðanna frá 2011 og nú er komið að Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ebsk lið mættust í úrslitaleiknum síðast þegar fjögur ensk lið komust áfram í átta liða úrslitin. Hér ganga þeir Cristiano Ronaldo hjá Manchester United og Didier Drogba hjá Chelsea framhjá bikarnum.
Ebsk lið mættust í úrslitaleiknum síðast þegar fjögur ensk lið komust áfram í átta liða úrslitin. Hér ganga þeir Cristiano Ronaldo hjá Manchester United og Didier Drogba hjá Chelsea framhjá bikarnum. Vísir/Getty
Ensku liðin hafa ekki verið fleiri í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í átta ár og Liverpool fær í kvöld tækifæri til að bæta stöðu enskra liða enn frekar í hópi átta bestu liða Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð.

Manchester City tryggði sér í gærkvöldi sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar með sannfærandi sigri á þýska liðinu Schalke 04 og bættist þar í hóp tveggja annarra enskra liða.

Í síðustu viku komust ensku liðin Tottenham og Manchester United áfram upp úr sextán liða úrslitunum. Tottenham sló Borussia Dortmund út sannfærandi en Manchester United vann ævintýrasigur á Paris Saint-Germain.

Þetta er besti árangur ensku liðanna í Meistaradeildinni í átta ár en þrjú ensk lið komust síðast í átta liða úrslitin tímabilið 2010 til 2011. Það vor voru Manchester United, Chelsea og Tottenham fulltrúar Englands í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.





Það gæti hins vegar fjölgað í hópnum í kvöld þegar tveir síðustu leikir sextán liða úrslitanna fara fram. Þrjú ensk félög (Manchester City, Manchester United og Tottenham), eitt ítalskt (Juventus), eitt hollenskt (Ajax) og eitt portúgalst (Porto) eru komin áfram.

Liverpool gerði markalaust jafntefli á móti Bayern München í fyrri leik liðanna á Anfield en seinni leikurinn fer fram á Allianz Arena í München í kvöld. Á sama tíma tekur Barcelona á móti Lyon en þau gerðu einnig markalaust jafntefli í fyrri leiknum.

Það eru liðin ellefu ár síðan England átti helminginn af átta liða úrslitunum en fjögur ensk félög komust í átta liða úrslitin 2007-08. Það ár komust þrjú þeirra, Manchester United, Liverpool og Chelsea, alla leið í undanúrslitin og Manchester United vann síðan Chelsea í vítakeppni í úrslitaleiknum.

Ensk félög í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar

2018-19: 3 (Manchester City, Manchester United og Tottenham)

2017-18: 2 (Liverpool og Manchester City)

2016-17: 1 (Leicester City)

2015-16: 1 (Manchester City)

2014-15: Ekkert

2013-14: 2 (Manchester United og Chelsea)

2012-13: Ekkert

2011-12: 1 (Chelsea)

2010-11: 3 (Manchester United, Chelsea og Tottenham)

2009-10: 2 (Manchester United og Arsenal)

2008-09: 3 (Liverpool, Arsenal og Chelsea)

2007-08: 4 (Manchester United, Liverpool, Arsenal og Chelsea)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×