Fótbolti

Lykilmenn hjá Real neituðu að fá Mourinho aftur sem þjálfara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Karim Benzema og Sergio Ramos vilja ekki sjá José Mourinho aftur.
Karim Benzema og Sergio Ramos vilja ekki sjá José Mourinho aftur. vísir/getty
Zinedine Zidane tók aftur við stjórnartaumunum hjá spænska stórliðinu Real Madrid í fyrradag aðeins tíu mánuðum eftir að kveðja félagið en hann var þá búinn að vinna Meistaradeildina þrjú ár í röð.

Þegar að ákveðið var að láta Santiago Solari fara eftir skelfilegt gengi að undanförnu fóru blöðin að reyna að skrifa José Mourinho aftur til Real en Florentino Pérez, forseti félagsins, hafði áhuga á að fá Portúgalann aftur til starfa.

Spænska íþróttablaðið Sport greinir frá því að leikmenn Real Madrid voru ekki sömu skoðunar og Peréz og höfnuðu því að fá Mourinho aftur til félagsins. Mourinho var orðinn ansi óvinsæll í klefanum áður en að hann yfirgaf Bernabéu á sínum tíma.

Lykilmenn í klefanum hjá Real Madrid á borð við Karim Benzema og fyrirliðann Sergio Ramos eru sagðir hreinlega hafa beitt neitunarvaldi þegar til stóð að ráða Mourinho mögulega aftur til starfa.

Mikið verk bíður Zidane en Real hefur gjörsamlega hrunið eftir að hann yfirgaf félagið. Hann þarf nú að taka stórar ákvarðanir en íþróttablaðið AS greinir frá því að Frakkinn vilji selja Gareth Bale í sumar.

Það verður ekki svo auðvelt því Bale líður vel í Madríd og er launahæsti leikmaður liðsins. Það þarf því að sannfærand Walesverjann um að fara frá spænsku höfuðborginni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×