Fótbolti

Margir gleðjast yfir óförum tveggja af óvinsælustu knattspyrnumönnum heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos og Neymar vinna engar vinsældarkosningar. Þetta var líka mjög erfið vika fyrir þá báða.
Sergio Ramos og Neymar vinna engar vinsældarkosningar. Þetta var líka mjög erfið vika fyrir þá báða. Samsett/Getty
Real Madrid og Paris Saint Germain ætluðu sér að vera að spila Meistaradeildarfótbolta í maí en í staðinn léku þau bæði sinn síðasta Meistaradeildarleik á tímabilinu í byrjun mars.

Real Madrid féll út á heimavelli á þriðjudagskvöldið og Paris Saint Germain féll út á heimavelli í gær. Bæði liðin voru í frábærri stöðu eftir góða útisigra í fyrri leiknum en klúðruðu því með eftirminnilegum hætti.

Þau áttu það líka sameiginlegt að stærstu stjörnur liðsins voru í upp í stúku. Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, tók út leikbann en Neymar, stórstjarna PSG, er meiddur. Myndavélarnar voru hins vegar á Ramos í heiðursstúkunni og Neymar á hliðarlínunni þar sem þeir horfðu á skútuna sína stranda í heimahöfn.





Eins og sjá má dæmi um hér fyrir ofan þá hlakkaði í mörgum vegna ófara þessara tveggja frábæru leikmanna sem báðir teljast vera í hópi þeirra allra bestu í sinni leikstöðu. Þeir eru líka mjög ofarlega á listanum yfir þá óvinsælustu.

Neymar hefur ekki unnið sér inn marga aðdáendur vegna leikaraskapar sem fór langt yfir öll velsæmismörk á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í fyrra. Neymar var heldur ekki að missa af mikilvægum Meistaradeildarleikjum í fyrsta sinn vegna meiðsla og sást skemmta sér á Kjötkveðjuhátíð í Ríó í Brasilíu á meðan liðsfélagar hans voru að undirbúa sig fyrir Meistaradeildarleikinn á móti Manchester United.

Sergio Ramos ætlaði að vera voðalega sniðugur með því að sækja sér gult spjald og taka því leikbann út í „léttum“ seinni leik á móti Ajax svo að hann gæti mætt með hreint borð inn í átta liða úrslitin. UEFA gaf honum einn leik í viðbót í bann og hann sá síðan Real Madrid vörnina hrynja algjörlega án sín.

Það eru líka fáir og enginn Liverpool maður búinn að gleyma því hvernig Sergio Ramos fór með Mohamed Salah í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra. Ramos jók heldur ekki vinsældir sínar með því að gefa Lionel Messi vænt högg um helgina.

Það er því kannski ekkert skrýtið að óvinsælir leikmenn fái að heyra það aðeins frá netverjum eftir þessi miklu vonbrigði. Var einhver að segja karma.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×