Fótbolti

Mbappe eftir sigurinn á United: Hættum þessum hræðsluáróðri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar með liðsfélögum sínum í gær.
Kylian Mbappe fagnar með liðsfélögum sínum í gær. Getty/Michael Regan
Kylian Mbappe átti flottan leik með Paris Saint Germain í sigrinum á Manchester United á Old Trafford í gær.

Mbappe skoraði annað mark PSG í leiknum og sá til þess að liðið hans saknaði ekki mikið stórstjarnanna Neymar og Edinson Cavani.

Paris Saint Germain hefur eytt gríðarlegum peningi í að búa til lið sem getur farið langt í Meistaradeildinni. Undanfarin tvö tímabil hefur liðið hins vegar dottið út í sextán liða úrslitunum og á þessum árum eftir yfirtöku nýju ríku eigandanna hefur PSG liðið aldrei komist í gegnum átta liða úrslitin.





„Við verðum að hætta þessum hræðsluáróðri. Fólk verður að hætta að vera hrætt. Við sýndum það í kvöld. Við erum góðir,“ sagði Kylian Mbappe en mikið var gert út áhrifum þess að Neymar gat ekki spilað á móti Manchester United.

Mbappe var þarna að skora sitt 23. mark á leiktíðinni í öllum keppnum. Hann hefur einnig skorað fjórtán mörk í Meistaradeildinni þrátt fyrir ungan aldur en það eru jafnmikið og Zinedine Zidane gerði allan sinn feril.

„Auðvitað er Neymar mjög mikilvægur og leikur okkar snýst mikið um Cavani. Fótboltinn er aftur á móti spilaður inn á vellinum og við sýndum það í dag,“ sagði Mbappe.





„Franskur fótbolti verður að fara eins langt og hægt er í Meistaradeildinni. Fólkið verður að styðja okkur og við munum styðja Lyon á móti Barcelona í næstu viku,“ sagði Mbappe.

„Við erum ánægðir en það er bara hálfleikur og við verðum að undirbúa okkur vel fyrir seinni leikinn því við gáfum eftir á síðustu tuttugu mínútunum í þessum leik,“ sagði Mbappe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×