Fótbolti

Drög að Íslandsmótinu birt - Valsmenn mæta Víking R. og Breiðablikskonur fara til Eyja

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Valsmenn fá Víking R. í heimsókn í fyrsta leik Pepsi-deildar karla
Valsmenn fá Víking R. í heimsókn í fyrsta leik Pepsi-deildar karla vísir/bára
Drög að leikjaniðuröðun Íslandsmóts karla og kvenna hafa verið birt í Pepsi-deildum karla og kvenna, Inkasso-deildum karla og kvenna, sem og Mjólkurbikar karla og kvenna.



Íslandsmeistarar Vals hefja leik á heimavelli í opnunarleik Pepsi-deildar karla þann 26. apríl en þá fá þeir Víking R. í heimsókn.



Fimm leikir verða leiknir degi síðar, þann 27. apríl, en stórleikur fyrstu umferðar verður í Garðabæ þegar Stjarnan fær KR-inga í heimsókn.



Breiðablik sækir Grindvíkinga heim, Fylkir fer til Vestmannaeyja þar sem ÍBV mun bíða þeirra. Nýliðar HK heimsækja FH-inga og þá munu hinir nýliðarnir, Skagamenn fá KA í heimsókn.



Í annarri umferð verður svo Kópavogsslagur þegar HK og Breiðablik mætast í Kórnum.



Pepsi-deild kvenna hefst 2. maí þegar Íslandsmeistarar Breiðabliks heimsækja ÍBV í opnunarleik mótsins. HK/Víkingur fær KR í heimsókn í fyrstu umferð og þá munu Stjarnan og Selfoss mætast í Garðabæ. Einnig munum við fá nýliðaslag strax í fyrstu umferð þegar Keflvíkingar heimsækja Fylkiskonur í Árbænum.



Fyrstu umferðinni líkur svo með stórleik Vals og Þór/KA degi síðar, eða 3. maí.



Inkasso-deild karla hefst 4. maí með tveimur leikjum en Inkasso-deild kvenna hefst 9. maí, einnig með tveimur leikjum.



Fyrstu umferð Mjólkurbikars karla verður leikin á dögunum 11.-13. apríl en enn á eftir að draga í fyrstu umferðina. Fyrsta umferð Mjólkurbikars kvenna fer fram 4. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×