Fótbolti

Enginn með betra markahlutfall en Belgar síðustu fjögur ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lukaku er duglegastur allra við markaskorun í liði Belga síðustu fjögur ár
Lukaku er duglegastur allra við markaskorun í liði Belga síðustu fjögur ár Vísir/Getty
Belgar eru það landslið í heiminum sem skorar hraðast. Þetta segir í grein belgíska miðilsins HLN.

Á fjórum árum hefur belgíska landsliðið bætt sögulega markatölu sína úr -3 í +99, það er 102 marka sveifla.

Árið 2014 gerði Belgía 2-2 jafntefli við Fílabeinsströndina í vináttulandsleik í aðdraganda HM 2014. Það var landsleikur númer 713 í sögu Belga og eftir þann leik hafði liðið skorað 1199 mörk og fengið 1202 á sig.

Eftir 4-0 sigur á Skotum í vináttulandsleik um helgina er markatala Belga 1349 mörk skoruð og 1250 mörk fengin á sig. Þeir skoruðu því 150 mörk og fengu aðeins 48 á sig í 59 landsleikjum á fjórum árum.

Ekkert annað landslið í heiminum er með eins gott markahlutfall á þessu tímabili.

Romelu Lukaku á 36 mörk af þessum 150, eini maðurinn sem hefur gert betur í síðustu 59 landsleikjum er Robert Lewandowski sem er með 40 mörk fyrir Pólverja.

Lukaku mætir á Laugardalsvöll á morgun með félögum sínum í belgíska landsliðinu og spila þeir við Ísland í Þjóðadeildinni annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×