Sport

Vann mót í maí en fékk 22 sinnum meira fyrir að vinna Federer í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Millman þakkar Roger Federer fyrir leikinn.
John Millman þakkar Roger Federer fyrir leikinn. Vísir/Getty
Ástralinn John Millman kom flestum á óvart með því að vinna tennisgoðsögnina Roger Federer á Opna bandaríska meistaramótinu í nótt.

John Millman tryggði sér með því sæti í átta manna úrslitunum þar sem hann mætir Serbanum Novak Djokovic. John Millman er í 55. sæti á heimslistanum og þetta er í fyrsta sinn sem maður utan topp fimmtíu sem vinnur Roger Federer á Opna bandaríska.

Millman hafði aldrei komist lengra en í aðra umferð á risamóti en hann komst í 2. umferð á Opna bandaríska mótinu í fyrra þar sem hann tapaði svo fyrir Þjóðverjanum Philipp Kohlschreiber.

John Millman vann síðast mót í Aix-en-Provence í maí mánuði eftir sigur á landa sínum Bernard Tomic í úrslitaleik. Mótið er hluti af Áskorendamótaröð Alþjóðatennissambandsins.





Fyrir sigurinn á Open du Pays d'Aix þá fékk hann 21.158 dollara eða 2,3 milljónir íslenskra króna sem er ágætis peningur. Hann stenst þó ekki samanburð við það sem Millman tryggði sér með sigrium á Roger Federer.

Eftir að hafa unnið Roger Federer og tryggt sér sæti í átta manna úrslitum þá er Millman öryggur með 475 þúsund dollara í verðlaunafé á Opna bandaríska meistaramótinu.

Það gerir 51,8 milljón íslenskra króna og er 22 sinnum meira en hann fékk fyrir sigurinn á mótinu í suður Frakklandi í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×