Sport

Djokovic vann Federer-banann og er kominn í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic fagnar sigri og þakkar John Millman fyrir leikinn.
Novak Djokovic fagnar sigri og þakkar John Millman fyrir leikinn. Vísir/Getty
Novak Djokovic hefur aldrei tapað í átta manna úrslitum á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis og það breyttist heldur ekki í nótt þegar hann komst í ellefta sinn í undaúrslit risamótsins í New York.

Novak Djokovic vann Ástralann John Millman í þremur settum, 6-3 6-4 6-4, en Millman hafði slegið úr svissnesku tennisgoðsögnina Roger Federer í leiknum á undan. Leikurinn tók tvo klukkutíma og 49 mínútur.

Hinn 31 árs gamli Djokovic er á eftir sínum þriðja titli á Opna bandaríska meistaramótinu en hann hefur unnið allar ellefu viðureignir sínar í átta manna úrslitum á US Open.





Novak Djokovic mætir Japananum Kei Nishikori í undanúrslitunum á morgun. Novak hefur unnið sjö af ellefu  undanúrslitaviðureignum sínum á Opna bandaríska meistaramótinu í gegnum tíðina.

Það er aðeins meira undir en bara sigur á risamóti fyrir Novak Djokovic. Með sigri á þessu móti myndi hann ná sínum fjórtánda sigri á risamóti og komast upp að hlið þeirra Pete Sampras og Ivan Lendl. Þá hefðu aðeins tveir unnið fleiri risamót en Serbinn eða þeir Roger Federer (20) og Rafael Nadal (17).

Hin bandaríska Madison Keys tryggði sér sæti í undanúrslitum kvenna með sigri á Carla Suárez Navarro frá Spáni. Þá varð Naomi Osaka fyrsta japanska tenniskonan til að komast í undanúrslit á US Open þegar hún vann Lesia Tsurenko frá Úkraínu.

Undanúrslit kvenna fara fram í dag. Þar mætast annarsvegar Serena Williams frá Bandaríkjunum og Anastasija Sevastova frá Lettlandi og hins vegar þær Madison Keys og Naomi Osaka. Báðir leikirnir fara fram á Arthur Ashe Stadium.


Tengdar fréttir

Nadal í undanúrslit eftir fimm tíma maraþonleik

Spánverjinn Rafael Nadal á ennþá möguleika á þvi að verja titil sinn á Opna meistaramótinu í tennis eftir sigur í átta manna úrslitunum í nótt. Leikurinn kostaði hinsvegar mikla orku og endaði ekki fyrr en tvö um nóttina af staðartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×