Fótbolti

Bale allt í öllu í sigri Real Madrid á Roma

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bale klár í að taka yfir hjá Real
Bale klár í að taka yfir hjá Real
Gareth Bale virðist staðráðinn í að taka að sér að verða aðalmaðurinn í sóknarleik Real Madrid eftir að Cristiano Ronaldo yfirgaf félagið í sumar en Walesverjinn hefur sýnt mögnuð tilþrif á undirbúningstímabilinu.

Hann var maður leiksins þegar Real Madrid lagði Roma í International Champions Cup æfingamótinu í Bandaríkjunum í nótt.

Marco Asensio kom Real yfir strax á 2.mínútu eftir stórkostlega sendingu Bale og á 15.mínútu rak Bale endahnútinn á sókn Real og kom þeim í 2-0.

Hollenski miðjumaðurinn Kevin Strootman klóraði í bakkann fyrir Rómverja þegar sjö mínútur lifðu leiks. Lokatölur 2-1.

Leikurinn markaði endalok undirbúningstímabilsins hjá báðum liðum en Real Madrid mætir grönnum sínum í Atletico Madrid í Ofurbikar Evrópu eftir slétta viku. Næsti leikur Roma er hins vegar þann 19.ágúst þegar liðið heimsækir Torino í fyrstu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Hazard mætti til leiks Chelsea lék sömuleiðis sinn síðasta æfingaleik í gærkvöldi þegar franska úrvalsdeildarliðið Lyon kom í heimsókn á Stamford Bridge.

Eden Hazard og N´Golo Kante komu báðir við sögu í leiknum en þeir komu nýverið til móts við Chelsea liðið eftir að hafa fengið lengra sumarfrí vegna þátttöku sinnar á HM í Rússlandi.

Leikurinn endaði hins vegar með markalausu jafntefli og var því gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Hazard tryggði Chelsea sigur.

Chelsea hefur leik í ensku úrvalsdeildinni á laugardag þegar liðið heimsækir Huddersfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×