Fótbolti

Sendir „hrokafullum“ Englendingum pillu: „Þið komið heim en vonandi ekki með bikar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Southgate hefur nú verið allt annað en hrokafullur.
Gareth Southgate hefur nú verið allt annað en hrokafullur. vísir/getty
Króatinn Goran Ivanisevic er einn af vinsælli Wimbledon-meisturum sögunnar en hann er eini maðurinn sem unnið hefur þetta sögufræga risamót eftir að koma inn í mótið sem svokallað „Wild card“.

Ivanisevic lá aldrei á skoðunum sínum og það elskuðu Englendingar en kannski minna akkúrat núna eftir stutt viðtal hans við BBC. Hann var gripinn fyrir utan einn tennisvöllinn og spurður út í viðureign kvöldsins á HM.

Þar mæta hans menn enska landsliðinu í undanúrslitum HM 2018 en sigurvegari kvöldsins mætir Frakklandi í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

„Ég vona að við töpum ekki fyrir Englandi því þið eruð nú þegar búin að vinna. Þið eruð að koma heim með bikar,“ segir Ivanisevic og vitnar í lagið It´s coming home.

„Þið eruð svo hrokafull. Þið eruð best og fallegust. Þið munuð svo sannarlega koma heim en vonandi bara ekki með bikar,“ segir hann.

Króatinn er staddur á Englandi að fylgjast með Wimbledon þannig hann neyðist til að horfa á leikinn með enskum stuðningsmönnum.

„Ég finn mér einhvern bar og horfi með Englendingum. Vonandi verð ég einn eftir hlæjandi,“ segir Goran Ivanisevic.

Viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×