Fótbolti

Þjálfari hinna nýliðanna líka hættur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hernan Dario Gomez á hliðarlínunni í Rússlandi
Hernan Dario Gomez á hliðarlínunni í Rússlandi vísir/getty
Hernan Dario Gomez er hættur að þjálfa landslið Panama og hefur þegar í stað verið ráðinn landsliðsþjálfari Ekvador.

Hann tilkynnti uppsögn sína sama dag og Heimir Hallgrímsson tilkynnti að hann yrði ekki lengur landsliðsþjálfari Íslands. Því eru báðir nýliðarnir á HM í Rússlandi án þjálfara.

Panama og Ísland voru einu tvær þjóðirnar sem voru að keppa í fyrsta skipti í lokakeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á HM í Rússlandi í sumar.

Panama fékk ekkert stig á mótinu og hafnaði í neðsta sæti G-riðils eftir 3-0 tap gegn Belgíu, 6-1 tap gegn Englandi og 2-1 tap gegn Túnis.

Gomez er þrautreyndur í landsliðsþjálfarastarfi en hann kom heimaþjóð sinni, Kólumbíu, inn á HM í Frakklandi 1998 og tók svo við Ekvador þar sem hann náði að koma þeim inn á HM í Suður Kóreu og Japan.

Hann er nú mættur aftur til Ekvador og er ætlað að rífa liðið upp eftir að hafa hafnað í 8.sæti af 10 liðum í undankeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×