Fótbolti

Southgate lét enska liðið horfa á Íslandsleikinn fyrir HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alli í baráttunni við Birki Bjarnason í Hreiðrinu í Nice
Alli í baráttunni við Birki Bjarnason í Hreiðrinu í Nice vísir/getty
Englendingar spila til undanúrslita á HM í Rússlandi annað kvöld. Fyrir tveimur árum síðan fékk enska liðið mikinn skell þegar Íslendingar slógu þá út í 16-liða úrslitum á EM. Gareth Southgate neyddi liðið til þess að horfa á Íslandsleikinn fyrir HM.

Áður en enska liðið hélt til Rússlands boðaði Southgate, landsliðsþjálfari Englands, allt liðið á sinn fund og lét þá horfa aftur á 2-1 tapið gegn Íslandi. Margir leikmenn liðsins voru að sjá leikinn í fyrsta sinn.

„Þetta var í fyrsta skipti sem við upplifðum þennan leik aftur. Þú vilt ekki horfa á þetta aftur en við vissum hversu mikilvægt það var, áður en við fórum á annað stórmót, að fara í gegnum leikinn til þess að verða sterkari,“ sagði Dele Alli í viðtali við breska blaðið Independent.

„Á þessu augnabliki viltu að jörðin gleypi þig. Þú vilt fela þig inni í herbergi og aldrei koma aftur út.“

Enska liðið hefur sannarlega náð að hrista vonbrigðin gegn Íslandi af sér og eru stuðningsmenn Englands farnir að leyfa sér að dreyma um sjálfa heimsmeistarastyttuna. Eitt af því sem Southgate predikaði fyrir enska liðinu var að þeir þyrftu að horfast í augu við fortíðina til þess að geta haldið áfram og látið sig dreyma um framtíðina.

Leikur Englands og Króatíu fer fram klukkan 18:00 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×