Innlent

Jón Steinar sýknaður í meiðyrðamáli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Steinar í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð málsins fyrr í mánuðinum.
Jón Steinar í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð málsins fyrr í mánuðinum. Vísir/Vilhelm
Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag sýknaður í meiðyrðamáli sem Benedikt Bogason, hæstaréttardómari, höfðaði gegn honum.

Benedikt stefndi Jóni Steinari fyrir ummæli í bók þess síðarnefnda sem kom út í fyrra. Hann byggði málið á því að fullyrðingar Jóns Steinars í bókinni um að dómarar við Hæstarétt, þar á meðal hann sjálfur, hafi framið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, vini Jóns Steinars til fjölda ára, hafi verið ærumeiðandi.

Stefnan var tekin fyrir í byrjun mánaðarins. Lögmaður Benedikts, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sagði fullyrðingar Jóns Steinars hafa beinst persónulega að Benedikt og að í þeim hafi falist staðhæfing um saknæmt athæfi. Hann krafðist ómerkingar á fimm ummælum um dómsmorð og tveggja milljóna króna í bætur.

Lögmaður Jóns Steinars, Gestur Jónsson, lagði áherslu á að ekki mætti þagga niður í honum sem hæfasta gagnrýnanda íslensks dómskerfis. Sem slíkur nyti hann rýmra tjáningarfrelsis en flestir aðrir til að tjá sig um störf Hæstaréttar.

Forsaga málsins er sú að Hæstiréttur staðfesti sakfellingu Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Baldri, sem hafði verið ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins þegar efnahagshrunið dundi á, vegna innherjasvika árið 2011. Jón Steinar var þá hæstaréttardómari sjálfur en lét af störfum ári síðar.

Jón Steinar fjallaði um mál Baldurs í bók sinni „Með lognið í fangið“ sem kom út í fyrra og fullyrti að hæstaréttardómararnir hefðu fellt dóm sem þeir vissu eða hlytu að hafa vitað að stæðist ekki hlutlausa dómaframkvæmd. Sagði hann dóminn yfir Baldri falla vel að skilgreiningunni á dómsmorði.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Dómari víkur í meiðyrðamáli gegn Jóni Steinari

Sandra Baldvinsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjaness, mun víkja sæti sem dómari í meiðyrðamáli sem Benedikt Bogason hæstaréttardómari höfðaði gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×