Fótbolti

Emil: Býst við stærra hlutverki núna en á EM

Tómas Þór Þórðarson í Moskvu skrifar
Emil Hallfreðsson er líklegur í íslenska byrjunarliðið á móti Argentínu.
Emil Hallfreðsson er líklegur í íslenska byrjunarliðið á móti Argentínu. vísir/vilhelm
Emil Hallfreðsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, hefur á undanförnum misserum alltaf fengið stærra og stærra hlutverk í liðinu eftir að hann þurfti að dúsa mikið á bekknum og var í hreinskilni sagt ekki með stórt hlutverk.

Emil, sem hóf feril sinn sem kantmaður, kom mjög oft inn á kantinn í leikjum þrátt fyrir að hann hættur að spila þá stöðu með félagsliði sínu fyrir löngu. Eðli málsins samkvæmt skilaði hann ekki alltaf jafngóðu starfi þar og í sinni stöðu sem er á miðjunni.

Hafnfirðingurinn kom aðeins inn á í einum leik á EM fyrir tveimur árum en það var einmitt á vænginn á móti Ungverjalandi. Innkoman var ekkert sérstök og spilaði Emil ekki fleiri mínútur á mótinu. Eftir að hann fór að spila meira á miðjunni fóru hlutirnir að líta betur út hjá honum í landsliðinu.

Emil Hallfreðsson kom við sögu í einum leik á EM en hugsar ekki mikið til baka.vísir/vilhelm
„Mér hefur gengið mun betur eftir að ég fékk að spila á miðjunni undanfarin tvö ár. Ég spilaði ekki mikið á EM en það er bara eins og það var. Ég er löngu kominn yfir það og ekkert pælt í því í tvö ár,“ segir Emil sem er mjög líklegur til að vera í byrjunarliðinu á móti Argentínu, hvort sem að Aron Einar er meiddur eða ekki.

„Staðan hjá mér núna er vissulega öðruvísi. Ég vona og býst við því að fá aðeins stærra hlutverk en á EM. Þetta er bara spennandi enda er maður fyrir löngu byrjaður að undirbúa sig fyrir þetta,“ segir hann.

Það styttist í stóru stundina í Moskvu en strákarnir okkar ganga út á Spartak-völlinn klukkan 16.00 að staðartíma á laugardaginn og hefja leik á HM. Undirbúningur er á fullu hjá okkar mönnum.

„Við erum búnir að taka nokkra fundi fyrir Argentínuleikinn og fórum yfir það aftur í gær. Við fórum létt yfir þá heima á Íslandi og svo aftur hérna. Menn eru orðnir innstillir á þann leik og hvernig við ætlum að fara í það verkefni,“ segir Emil Hallfreðsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×