Fótbolti

The Sun um Ísland: Flottur búningur en erfiðasti þjóðsöngurinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason er með rosalega greiðslu.
Birkir Bjarnason er með rosalega greiðslu. Vísir/getty
Kynningin á íslenska landsliðinu á vef breska götublaðsins The Sun er nokkuð skemmtileg en þar á bær eru menn hrifnir af flestu sem tengist íslenska liðinu.

Ýmislegt hefðbundið má finna í kynningunni eins og fólksfjölda á Íslandi, hver er þjálfari, fyrirliði og helsta stjarna og svo eru Sun-menn ánægðir með viðurnefnið Strákarnir okkar eða Our boys eins og það útleggst á ensku.

Íslenska treyjan hefur fengið misjafna dóma en hún fær nánast fullt hús í umfjöllun The Sun. „Treyjan nýtur innblásturs úr ís, vatni, eldi og geysi. Íslenska treyjan er frábær. Alveg blá með smá rauðu og hvítu á öxlunum. Þetta er treyja sem Frakkar óska þess að þeir væru í,“ segir í kynningunni.

Birkir Bjarnason er sagður með svakalegustu hárgreiðsluna en hann er einhvers staðar á milli norsks Guðs og leikkonunnar Joönnu Lumley. Þá er Frederik Schram fyndnasta nafnið því hann er sá eini sem endar ekki á son.

Þegar kemur að íslenska þjóðsöngnum er hann kallaður Lofsungur en ekki Lofsöngur en hann er sagður sá erfiðasti á HM. The Sun mælir með því að enginn reyni að læra kvæðið.

Alla umfjöllunina má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×