Fótbolti

Setja nýja íslenska landsliðsbúninginn í þrettánda sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Herra Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er hér með nýja búninginn.
Herra Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er hér með nýja búninginn. Vísir/Rakel
Íslenski landsliðsbúningurinn „sleppur“ að mati dómnefndar squawka netsíðunnar sem hefur lagt sitt mat á þá HM-búninga sem hafa verið kynntir til þessa.

Íslenski búningurinn er einn af átján sem hafa komið fram í dagsljósið og fólkið á Squawka netsíðunnar setur hann í þrettánda sæti í yfirliti sínu yfir flottustu búningana á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar.





Íslenski búningurinn var kynntur með viðhöfn í síðustu viku sem vakti talsverða athygli. Það voru ekki allir sáttir með búninginn en hann fékk þó aðeins betri dóma en þegar búningurinn á undan var kynntur til leiks fyrir EM í Frakklandi 2016.

Talsverðar breytingar voru gerðar á búningi landsliðsins undanfarin tvö ár og mesti breytingin var gerð á ermum búningsins auk þess sem röndin góða framan á treyjunni heyrir nú sögunni til.

Samkvæmt dómi Squawka þá sleppur íslenski búningurinn en ekki meira en það. Við féllum því ekki á búningaprófinu en við fengum heldur ekki góða einkunn að þessu sinni.

Í næsta sæti fyrir ofan íslenska búninginn var einmitt liðið sem strákarnir okkar eru að fara að mæta í San Francisco á föstudagskvöldið eða lið Mexíkó.

Alls eru fimm lönd með ljótari búninga en Ísland samkvæmt mati fólksins á squawka. Það eru Egyptaland, Rússland, Úrúgvæ, Sviss og Túnis. Túnisbúar verða að sætta sig að vera með ljótast búninginn en þeirra von liggur í því að fjórtán þjóðir eiga eftir að opinbera sinn HM-búning.

Íslenski búningurinn nær kannski bara þrettánda sæti en það verður engu að síður spilað í flottum búningum í íslenska riðlinum. Fólkið á squawka er nefnilega með búning Nígeríu í fyrsta sætinu hjá sér. Argentínski búningurinn þykir líka mjög flottur en hann er í þriðja sætinu.

Búningur Kólumbíu er síðan í öðru sætinu og í því fjórða er búningur Belgíu en Belgar koma einmitt á Laugardalsvöllinn í haust til að keppa við Ísland í Þjóðardeildinni.









Nýr íslenskur landsliðsbúningur.KSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×