Fótbolti

Eiður Smári hittir Carlos Tevez í Buenos Aires | Heimsækir mótherja Íslands á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Carlos Tevez.
Eiður Smári Guðjohnsen og Carlos Tevez. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen mun ekki aðeins vinna við heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar hann verður einnig upptekinn við sjónvarpsvinnslu í aðdraganda mótsins.

Eiður Smári Guðjohnsen er einn af sérfræðingum RÚV á HM í sumar en markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi er líka að fara að gera þætti um þjóðirnar sem Ísland mætir í riðlakeppninni í Rússlandi.

Eiður Smári var í íslenska landsliðinu sem fór á EM í Frakklandi sumarið 2016 en nú verður hann hinum megin við borðið.

Hilmar Björnsson íþróttastjóri RÚV sagði frá því í viðtali á K100 í gær eins og kemur fram á fótbolti.net.  „Hann mun ásamt okkar teymi framleiða þrjá þætti um andstæðinga Íslands. Hann er að fara til Nígeríu, Argentínu og Króatíu og kynna sér landið og fólkið," sagði Hilmar Björnsson íþróttastjóri RÚV í viðtali á K100.

Eiður Smári mun þar reyna að komast að því hvað fólk í þessum þremur löndum veit um Íslands og stefnan er að hann hitti gamlar stjörnur. Eiður Smári spilaði á sínum tíma með fyrirliðum allra þjóðanna þriggja, þeim Lionel Messi (hjá Barcelona), John Obi Mikel (hjá Chelsea) og Luka Modrić (hjá Tottenham).

Í fréttinni á fótbolti.net kemur ennfremur fram að Eiður Smári sé á leiðinni til Buenos Aires í Argentínu þann 4. apríl næstkomandi þar sem hann mun hitta bæði Carlos Tevez, framherja Boca Juniors og fyrrum leikmann Manchester United, sem og leikmenn sem urðu heimsmeistarar með argentínska landsliðinu á heimavelli fyrir 40 árum. 1978 er einmitt fæðingarár Eiðs Smára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×