Innlent

Ný skilgreining á nauðgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sá sem gerist sekur um nauðgun skal sæta fangelsi ekki skemur en einu ári og allt að 16 árum.
Sá sem gerist sekur um nauðgun skal sæta fangelsi ekki skemur en einu ári og allt að 16 árum. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Alþingi samþykkti í dag frumvarp um breytingar á almennum hegningalögum þess efnis að samþykki verði í forgrunni skilgreiningar á nauðgun. Í 194. grein laganna sagði áður að „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun“.

48 af 49 þingmönnum sem viðstaddir voru atkvæðagreiðsluna í dag að lokinni þriðju umræðu greiddu atkvæði með því að fyrrnefnd setning yrði á þessa leið:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun.“

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem lagt hefur verið fram á tveimur síðustu þingum án þess að koma til meðferðar. Breytingar á lögum taka þegar gildi.

Óskað var eftir umsögn 46 aðila um frumvarpið og gáfu tíu umsagnir. Í umsögn héraðssaksóknara, sem sækir fólk til saka fyrir kynferðisbrot, kom meðal annars fram að héraðssaksóknari tæki undir sjónarmið flutningsmanna um að breytingin myndi leiða til þess að einstaklingar yrðu líklegri til að vera meðvitaðri um mikilvægi þess að fá samþykki fyrir þátttöku í kynferðislegri athöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×