Fótbolti

Aðalspæjari Lagerbäcks benti Trelleborg á Óttar Magnús

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óttar Magnús mættur í búning Trelleborg.
Óttar Magnús mættur í búning Trelleborg. twitter
Roland Andersson, fyrrverandi aðalnjósnari íslenska landsliðsins í fótbolta, er maðurinn sem benti sænska úrvalsdeildarliðinu Trelleborg á íslenska landsliðsmanninn Óttar Magnús Karlsson.

Þetta kemur fram á vef sænska blaðsins Expressen en Trelleborg þurfti sárlega á öflugum framherja að halda þegar að markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð, Salif Camara-Jönsson, meiddist.

Patrick Winqvist, þjálfari Trelleborgar, hringdi í Roland Andersson og bað hann um að benda sér á leikmenn en sá sænski lét þjálfarann vita að Óttar gæti verið laus frá Molde í Noregi.

Óttar var seldur til Molde eftir að slá í gegn í Pepsi-deildinni sumarið 2016 þegar að hann skoraði sjö mörk í 20 leikjum og var kjörinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hann náði ekki að festa sér sæti í byrjunarliði Molde og kom heim síðasta sumar til að ná áttum.

„Roland hefur séð leikmanninn og komst að ýmsu fyrir okkur. Við erum vissir um að þetta sé það rétta í stöðunni. Ég þekki Roland frá dögum mínum hjá Malmö og ég treysti fótboltavisku hans,“ segir Patrick Winqvist.

Óttar Magnús skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í janúar á móti Indónesíu og fær nú vonandi að spila reglulega í sænsku úrvalsdeildinni þar sem Trelleborg hefur leik gegn stórliði IFK Gautaborgar 1. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×