Fótbolti

Mourinho mætir á HM og fær 139 milljónir fyrir fimm daga vinnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, verður á HM í fótbolta í Rússlandi í sumar og er Portúgalinn meira að segja kominn með sumarvinnu. Hann fær líka ágætlega borgað fyrir hana samkvæmt fréttum í enskum fjölmiðlum.

Rússneska ríkissjónvarpið hafði betur í kapphlaupinu við bresku sjónvarpsstöðvarnar BBC og ITV um að fá Jose Mourinho til að greina keppnina fyrir stöðina.

The Times hefur heimildir fyrir því að Jose Mourinho fái eina milljón punda, eða tæplega 139 milljónir íslenskra króna, fyrir fimm daga vinnu.

Jose Mourinho hefur stýrt liðum í Portúgal, á Spáni, á Ítalíu og á Englandi þar sem hann starfar nú sem knattspyrnustjóri Manchester United. Hann þekkir stóran hóp leikmannanna á HM persónulega og um leið hefur hann mikla þekkingu á fótboltanum víðs vegar um Evrópu.

RT-stöðin hefur einnig náð samningum við Danann Peter Schmeichel en hér fyrir neðan má sjá hvernig þeir félagar voru kynntir til leiks.





Það má búast við að margir séu forvitnir að vita hvað Jose Mourinho segir um leikina á HM í sumar og það væri sem dæmi gaman að komast að skoðun hans á íslenska landsliðinu sem er nú með í fyrsta sinn í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins.

Áður en kemur að verkefnum sumarsins í Rússlandi þá mun Jose Mourinho reyna að vinna titil með Manchester United sem er í ágæti stöðu í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar, er í baráttunni um annað sætið í ensku úrvalsdeildinni og mætir Brighton & Hove Albion í átta liða úrslitum enska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×