Fótbolti

Argentínumenn biðla til Messi um að spara sig fyrir Ísland og HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Vísir/Getty
Lionel Messi missir ekki af mörgum leikjum með Barcelona. Hann er stærsta stjarna liðsins og margir mæta á Barcelona-leiki til að sjá þenann frábæra fótboltamenn leika listir sínar í eigin persónu.

Argentínumenn eru ekki eins hrifnir af því hvað Messi fær litla hvíld hjá Barcelona liðinu. Messi er algjör lykilmaður fyrir spænska liðið og liðið getur helst ekki verið án hans.

Claudio Tapia, forseti argentínska knattspyrnusambandsins, hefur rætt þetta við Lionel Messi sem er fyrirliði argentínska landsliðsins.

Tapia vill að Messi spili færri leiki með Barcelona til að spara sig eitthvað fyrir HM í Rússlandi í sumar þar sem argentínska landsliðið mætir Íslandi í fyrsta leik 16. júní næstkomandi.





Messi hefur verið í byrjunarliði Barcelona í 33 af 39 leikjum liðsins og ef það er eitthvað sem þú gerir ekki þá er það að taka Messi af velli.

Þjálfarinn Ernesto Valverde hvíldi Messi í fyrsta sinn í deildinni á tímabilinu í leik á móti Espanyol 4. febrúar. Hann kom hinsvegar inná og bjargaði stigi fyrir Barcelona liðið.

Messi er með 27 mörk og 14 stoðsendingar í 36 leikjum í öllum keppnum með Barcelona á þessari leiktíð.





Tapia er ekki aðeins að hafa áhyggjur af þreytu hjá Messi heldur óttast hann einnig að þessi langbesti leikmaður liðsins meiðist í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar.

Argentínumenn þurfa að fá Lionel Messi ferskan og í miklu stuði inn á HM ætli liðið að ná langt á heimsmeistaramótinu í sumar. Liðið fór alla leið í úrslitaleikinn fyrir fjórum árum en tapaði þá fyrir Þýskalandi í framlengingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×