Fótbolti

Kolbeinn: Vongóður um HM og vill fá að spila svo hann geti gleymt því sem hann gekk í gegnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson á blaðamannafundi með íslenska landsliðinu á EM 2016.
Kolbeinn Sigþórsson á blaðamannafundi með íslenska landsliðinu á EM 2016. Vísir/Getty
Íslenski framherjinn Kolbeinn Sigþórsson er í viðtali á heimasíðu franska liðsins Nantes og það er ekki hægt að heyra annað en að íslenski framherjinn sé orðinn mjög spenntur fyrir því að komast aftur inn á völlinn.

Kolbeinn hefur verið að glíma við langvinn meiðsli og hefur sem dæmi ekki spilað með íslenska landsliðinu síðan í leiknum á móti Frökkum í átta liða úrslitum Evrópumótsins í júlí 2016.

„Það gengur allt vel. Ég var í burtu í eitt og hálft ár en er nú á lokasprettinum í endurhæfingunni og þetta lítur vel út. Ég er ánægður með hvernig þetta gengur og get ekki beðið eftir því að fá að spila,“ sagði Kolbeinn í viðtali á heimasíðu Nantes.





„Ég var um tíma ekki viss um framtíðina eða hvort að hnéð yrði í lagi. Það var það erfiðasta. Ég einbeitti mér að því að halda trú minni á að ég kæmi til baka. Sem betur fer er það erfiðasta að baki. Ég er jákvæður. Ég vonast til að fara spila sem fyrst svo ég geti gleymt því sem ég gekk í gegnum,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn æfir með liðinu og hefur gert það undanfarnar tvær vikur. „Það eru engin vandamál með hnéð. Ég fór í gegnum góða styrktarþjálfun áður en ég kom til baka og ég tel mig vera tilbúinn að stíga aftur inn á fótboltavöllinn,“ sagði Kolbeinn.





„Ég er orðinn mjög hungraður í það að spila aftur og að berjast fyrir mínu sæti í liðinu. Við erum í fimmta sæti í deildinni og það gengur mjög vel. Ég er tilbúinn,“ sagði Kolbeinn en hvenær verður fyrsti leikurinn?

„Um leið og þjálfarinn kallar á mig. Ef hann kallar á mig um helgina þá er ég tilbúinn. Í fullri alvöru þá vonast ég eftir því að ég spili í þessum mánuði. Ég er ekki tilbúinn í 90 mínútur en ég er klár í að hjálpa liðinu. Mitt markmið var að koma aftur í febrúar. Ég nálgast það,“ sagði Kolbeinn en er möguleiki á því að hann spili með Íslandi á HM?

„Af hverju ekki? Ef hlutirnir ganga áfram vel þá vonast ég eftir því að fá að taka þátt í því ævintýri. Það er samt langur vegur fyrir mig ennþá. En ef ég kemst í form og spila reglulega þá sé ég það ganga upp. Við erum með marga öfluga sóknarmenn og það verður því ekki auðvelt að komast í liðið. Ég er samt jákvæður og vongóður,“ sagði Kolbeinn.





Kolbeinn lék síðast með Nantes 28. ágúst 2016. Hann fór á láni til tyrkneska félagsins Galatasaray en spilaði ekkert með liðinu vegna meiðsla. Hann fór á endanum aftur til Nantes.

Þegar Kolbeinn spilaði fyrir Nantes á móti í lok ágúst 2016 þá var þjálfari liðsins René Girard. Nú er þjálfari Nantes hinsvegar Ítalinn Claudio Ranieri sem var á þessum haustmánuðum 2016 að hefja titilvörn sína með Leicester í ensku úrvalsdeildinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×