Fótbolti

Viðurkenndi rangan dóm sem sendi Sviss á HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hategan bendir á punktinn örlagaríka
Hategan bendir á punktinn örlagaríka vísir/getty
Dómarinn sem sendi Sviss í lokakeppni HM á Rússlandi hefur viðurkennt mistök sín í röngum dómi sem réði úrslitum umspilsleik Sviss og Norður-Írlands.

Liðin mættust í umspili um laust sæti á HM og var aðeins eitt mark skorað í leikjunum tveimur sem kom úr vítaspyrnu, en vítaspyrnudómurinn var mjög umdeildur.

Skot Xherdan Shaqiri fór í hendi Corry Evans af mjög stuttu færi, aðeins um tveimur metrumm, og handleggur Evans var í eðlilegri stöðu við líkama hans.

Dómari leiksins var hinn rúmanski Ovidiu Hategan og hann sagði við rúmenska fjölmiðla að hann sæi eftir mistökum sínum.

„Þetta var slæmt augnablik fyrir mig. Ég gerði þessi mistök en þau eru sársaukafull, sérstaklega þar sem dómarateymið stóð sig vel.“

„Í okkar heimi er eins með dómara og markmenn, fólk tekur bara eftir mistökunum.“

„Ég komst yfir þetta, ég er sterkur karakter og fjölskyldan hjálpaði mér í gegnum þetta,“ sagði Hategan, en talkSPORT greindi frá.

Hategan var ekki á meðal þeirra 36 dómara sem FIFA valdi í dómgæslustörf í lokakeppninni sjálfri. Hann hefur þó ekki gefið upp alla von á að komast til Rússlands, því hann vill reyna að fara þangað sem myndbandsdómari, en myndbandsdómgæslutækni verður notuð á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×