Fótbolti

Ísland í hópi tuttugu bestu knattspyrnulandsliða heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði tuttugasta besta landsliðs í heimi.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði tuttugasta besta landsliðs í heimi. Vísir/Ernir
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hækkar sig um tvö sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins en janúarlistinn var gefinn út í morgun.

Íslenska liðið er í 20. sæti á fyrsta FIFA-lista ársins 2018 en liðið var í 22. sæti á síðasta lista árins 2017.

Íslenska landsliðið vann tvo sigra á Indónesíu í síðustu viku og skoraði þá tíu mörk í tveimur leikjum. Indónesía fer upp um tvö sæti og er nú í 160. sæti.





Íslenska landsliðið hoppar upp fyrir knattspyrnustórveldin Holland og Úrúgvæ á þessum nýja lista. Næst á undan Íslandi er nú landslið Wales sem var einmitt að ráða Ryan Giggs í vikunni.

Íslands er samt áfram bara í þriðja sæti meðal Norðurlandaþjóðanna því Danir eru í 12. sæti og Svíar eru í 18. sæti. Noregur fer upp um eitt sæti og er nú í 58. sæti en Finnar eru í 68. æsti. Færeyingar falla niður um tvö sæti og eru í 97. sæti.

Það varð engin breyting á stöðu fjórtán efstu þjóða listans. Efstu fjögur eru áfram Þýskaland, Brasilía, Portúgal og Argentína. Króatar fara upp um tvö sæti og í 15. sæti. Króatía fór upp fyrir bæði England og Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×