Fótbolti

Messi og félagar vildu ekki undirbúa sig fyrir Íslandsleikinn á móti landsliði Lagerbäck

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck og Lionel Messi.
Lars Lagerbäck og Lionel Messi. Vísir/Anton og Getty
Lars Lagerbäck þjálfar norska landsliðið en það var ekki nóg til að sannfæra Argentínumenn að spila vináttulandsleik við liðið svo þær gætu undirbúið sig fyrir fyrsta leikinn sinn á HM í Rússlandi 2018.

Ekkert verður af því að Noregur og Argentína mætist í vináttulandsleik fyrir HM í Rússlandi þrátt fyrir að Nils Johan Semb, formaður norska knattspyrnusambandsins hafi barist fyrir því.  Dagbladet segir frá.

Argentína mætir íslenska landsliðinu í fyrsta leik sínum á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar og ef að eitthvað landslið líkist því íslenska þá ætti það að vera það norska.

Þjálfari norska landsliðsins er nefnilega Lars Lagerback maðurinn sem þjálfaði íslenska landsliðið frá 2012 til 2016 og bjó öðrum fremur til þá menningu sem hefur komið íslenska liðinu í hópi tuttugu bestu landsliða heims.

Norðmenn reyndu að koma með þessu rök þegar þeir sóttust eftir leik á móti Aregntínu en nú segir umræddur Nils Johan Semb að vonin sé úti.  Argentínumenn hafa greinilega ekki miklar áhyggjur af íslenska landsliðinu.

Norska landsliðið var langt komið með að landa leik á móti Mexíkó en tímasetningarnar hentuðu ekki vegna leikja í norsku deildinni og norska bikarnum. Liðið spilar aftur á móti leikja á móti Ástralíu og Albaníu í mars.

Norðmenn eiga því enn eftir að finna sér mótherja í tveimur vináttulandsleikjum í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×