Fótbolti

Heimir við erlenda fjölmiðla: „Eftir HM sækjum við um skilnað frá Króatíu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Íslands.
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Íslands. Vísir/EPA
„Við erum nánast eins og hjón,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu við erlenda fjölmiðla eftir að í ljós kom að enn og aftur hafi Ísland dregist gegn Króatíu. Dregið var í riðla fyrir HM í knattspyrnu í Rússlandi í dag.

Ísland hefur á undanförnum árum ítrekað att kappi við landslið Króatíu, fyrst í umspilsleikjum um að komast á HM sem haldið var í Brasílíu árið 2014 og nú síðast í undankeppninni fyrir það mót sem haldið verður á næsta ári í Rússlandi.

Heimir sló á létta strengi við erlenda fjölmiðla og líkti sem fyrr segir sambandi Íslands og Króatíu við hjónaband. Heimir virðist þó eitthvað vera orðinn þreyttur á ráðahaginum.

„Eftir HM sækjum við um skilnað frá Króatíu,“ sagði Heimir við erlenda fjölmiðla sem ræddu við hann eftir dráttinn. Heimir virðist hafa verið ánægður með þessa líkingu og notaði hana víðar, meðal annars í samtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu í dag.

„Ísland og Króatía eru eins og hjón sem eru alltaf að skilja en enda svo alltaf saman aftur,“ sagði hann þar í léttum dúr en viðtal Hjartar við Heimi má heyra hér fyrir neðan.

Heimir virðist þó vera nokkuð sáttur við dráttinn og segir mikla rómantík fólgna í því að eiga opnunarleik gegn Argentínu.

„Maður fær ekki betri móttökur,“ sagði Heimir. „Það er margar rómantískar hugsanir í höfðum okkar núna eftir að í ljós kom að Argentína er fyrsti mótherjinn.“

Í umfjöllun Washington Post um íslenska landsliðið er fjallað um árangur liðsins á EM í fótbolta, síðasta sumar. Er minnst á að víkingaklappið hafi sigrað hug og hjörtu knattspyrnuaðdáenda víða um heim og Heimir er viss um að íslenskir stuðningsmenn muni setja sinn svip á Rússland næsta sumar.

„Okkar stuðningsmenn verða stjörnurnar á þessu móti,“ sagði Heimir en umfjöllun Washington Post má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×