Fótbolti

„Erum alltof hrokafull þrátt fyrir að hafa aldrei unnið neitt eða gert neitt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bandaríkjamenn fóru afar illa að ráði sínu í undankeppni HM.
Bandaríkjamenn fóru afar illa að ráði sínu í undankeppni HM. vísir/getty
Claudio Reyna, fyrrverandi fyrirliði bandaríska landsliðsins, segir að viðhorf Bandaríkjanna til fótbolta sé of hrokafullt.

Bandaríska landsliðinu mistókst að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi eftir slaka frammistöðu í undankeppninni.

Reyna, sem lék 112 landsleiki á árunum 1994-2006, segir að það sé margt að í bandarískum fótbolta.

Claudio Reyna var fyrirliði bandaríska landsliðsins á sínum tíma.vísir/getty
„Nálgun okkar á leikinn er röng. Við erum alltof hrokafull þrátt fyrir að hafa aldrei unnið neitt eða gert neitt,“ sagði Reyna við Goal.

Hann segir að viðhorf Bandaríkjanna sé brenglað og hugarfarið ekki gott.

„Við erum með þjálfara sem halda að þeir séu betri en þeir eru í raun og veru. Heilt yfir höldum við að við séum betri en við erum,“ sagði Reyna.

„Þangað til við áttum okkur á því að við erum ekki jafn góð og við erum verður meðalmennskan áfram ríkjandi.“

Bandaríkin hafa verið með á 10 heimsmeistaramótum en aldrei komist lengra en í 8-liða úrslit, fyrir utan HM 1930 þegar bandaríska liðið komst í undanúrslit.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×