Fótbolti

Aron Einar: Ég mun ekki taka neina áhættu

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, er tæpur fyrir leikinn á móti Tyrklandi á föstudaginn. Eins og kom fram fyrr í dag fékk hann bakslag í meiðslin og er alls óvíst hvort hann geti verið með í leiknum.

Aron Einar er meiddur í rassvöðva en hann spilaði ekki síðasta leik Cardiff fyrir landsleikjafríið. Hann æfði einn í dag með sjúkraþjálfara en augljóslega er verið að gera allt til að koma fyrirliðanum í stand.

„Það er dagamunur á þessu hjá mér. Ég varð fyrir smá áfalli í gær. Ég ætla að prófa þetta aðeins í dag og svo sjáum við til. Ég get hreinlega ekki svarað spurningunni hvort ég spili eða ekki. Þetta er ekki erfið staða en skrítin staða. Ég reyni bara allt sem ég get til að vera klár. Hvort sem það er ein klukkustund í meðhöndlun eða tvær. Það er allt gert til að vera með. Hvort það virki verður að koma í ljós,“ sagði Aron Einar fyrir æfinguna í dag.

Aron spilaði meiddur allt Evrópumótið í fyrra en margsinnis hefur hann fórnað sér fyrir íslenska liðið. Hann ætlar ekki að taka neina sénsa núna.

„Lífið er ekki einn fótboltaleikur. Maður verður að hugsa aðeins um framtíðina. Ég kem aldrei til með að spila ef ég er tæpur og finn til. Þá er betra að hafa leikmann sem er 100 prósent inn á vellinum. Ég er á fullu spani að koma mér í stand til að vera klár á föstudaginn og ég kem til með að reyna allt,“ sagði Aron.

Neil Warnock, stjóri Arons hjá Cardiff, er ekkert hrifinn af því að Aron sé með landsliðinu og hvað þá að hann spili. Er ekkert óþægilegt að vera fastur svona á milli steins og sleggju?

„Ég er í rauninni ekkert fastur á milli neins. Það er í gildi þessi FIFA regla sem leyfir landsliðinu að fá leikmenn, meta þá og senda þá frekar til baka ef þess þarf. Það bjargar leikmönnum frá því að vera einhverstaðar í miðjunni. Lokaniðurstaðan er að ég ræð hvort ég tek þessa áhættu eða ekki. Ég mun ekki taka neina áhættu með að spila. Ég þarf að vera klár til að taka 90 mínútur og þannig verður það vonandi,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.


Tengdar fréttir

Bakslag hjá Aroni Einari

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, er ekki alltof bjartsýnn á að hann geti verið með liðinu í leiknum mikilvæga á móti Tyrkjum í undankeppni HM 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×