Fótbolti

Hetjur sem óttast ekkert

Tómas Þór Þórðarson í Eskisehir skrifar
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í fótbolta eru einu skrefi frá því að komast beint á HM 2018 eftir magnaðan 3-0 sigur gegn Tyrkjum í Eskisehir í gærkvöldi. Þökk sé jafntefli Finnlands og Króatíu er Ísland nú efst í riðlinum og er öruggt með farseðil til Rússlands vinni það Kósóvó á mánudaginn í Laugardalnum. Hverjum hefði dottið í hug að þetta yrði staðan eftir tapið gegn Finnlandi?

Sigur strákanna í gærkvöldi var algjörlega magnaður. Enn eina ferðina gekk Tyrkjum ekkert að brjóta niður fastmótað og vel útfært leikskipulag Íslands og fljótlega fór það að fara í taugarnar á þeim. Í síðustu fjórum leikjum gegn Tyrklandi er íslenska liðið aðeins búið að fá á sig eitt mark og það var draumamark, beint úr aukaspyrnu.

Ísland hélt sig við grunngildi sín og skipulag. Undirbúningurinn fyrir leikinn var augljóslega fullkominn bæði er varðar fótboltafræðin og eins varðandi undirbúninginn fyrir stemninguna sem var búist við að myndi ríkja á leiknum. Hún var svakaleg til að byrja með; ærandi læti og baul svo enginn heyrði mannsins mál.

Það er ekki nema mánuður síðan króatíska landsliðið mætti til Tyrklands og bognaði undan þessu andrúmslofti. Það gerðu okkar strákar ekki. Hetjur nefnilega óttast ekkert og þessir drengir eru ekkert annað en hetjur. Alltaf þegar maður heldur að þeir séu búnir að toppa sig draga þeir svona frammistöðu fram úr erminni og kemur íslensku þjóðinni, sem er nú þegar búin að fá að fagna með þeim, á óvart.

Hver einn og einasti maður vissi hvað hann átti að gera inn á vellinum og gerði það vel. Eins og alltaf er þó ein stjarna sem skín aðeins skærar og að þessu sinni var það Jón Daði Böðvarsson sem átti sviðið. Þó honum gangi illa að skora fyrir landsliðið er hann þyngdar sinnar virði í gulli með vinnusemi sinni og baráttu. En í gær lagði hann upp fyrstu tvö mörkin og var óskabarn þjóðarinnar í nokkrar klukkustundir.

Það er skammur tími fyrir Heimi til að vinna með strákana fyrir leikinn á mánudaginn en við vitum að þeir eru klárir. Kósóvó er klisja; sýnd veiði en ekki gefin. Við erum samt með betra lið og ef menn spila svona eins og í Tyrklandi verður mánudagurinn 9. október rauður dagur á dagatölum framtíðarinnar. HM-dagurinn.


Tengdar fréttir

Kári: Hefðum tekið þessa stöðu fyrir mót

Kári Árnason, miðvörður Íslands, átti frábæran leik í kvöld sem og allir leikmenn íslensa liðsins í 3-0 sigri á Tyrkjum. Kári segir að liðið hefði tekið þessa stöðu fyrir mót; að vera sigri frá sæti á HM.

Heimir: Risa karaktersigur

Heimir Hallgrímsson var að vonum hæstánægður eftir 0-3 sigur Íslands á Tyrklandi í Eskisehir í undankeppni HM í kvöld.

Einkunnir eftir sigurinn í Tyrklandi: Jón Daði maður leiksins

Ísland vann stórbrotinn sigur á Tyrklandi í kvöld, en leiknum lauk með 3-0 sigri Íslands. Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason skoruðu mörk Íslands og liðið hefur því tryggt sér að minnsta kosti umspilssæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×