Fótbolti

Giggs vorkennir Rooney: „Hann er örugglega svolítið ringlaður“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney kom inn af bekknum í gær.
Wayne Rooney kom inn af bekknum í gær. vísir/getty
Ryan Giggs, fyrrverandi samherji og þjálfari Wayne Rooney, fyrirliða Manchester United, vorkennir félaga sínum sem hann segir vera að ganga í gegnum breytingaskeið á sínum ferli.

Síðustu vikur hafa ekki verið góðar fyrir Rooney sem missti sætið sitt í byrjunarliði Manchester United og var svo settur á bekkinn hjá enska landsliðinu. Hann er fyrirliði beggja liða.

Ferill Rooney hefur verið glæsilegur en þessi 31 árs gamli framherji stefnir á markametið hjá Manchester United og leikjametið hjá enska landsliðinu. Hann er nú þegar orðinn markahæstur í sögu enska landsliðsins.

Giggs skilur hvað Rooney er að ganga í gegnum og finnur til með framherjanum því Walesverjinn upplifði það sama á löngum ferli sínum.

„Ég sé leikmann sem er að ganga í gegnum breytingaskeið. Ég gekk í gegnum það sama þegar ég var 29 eða 30 ára gamall. Þá var ég vængmaður sem komst ekki lengur framhjá varnarmönnum,“ sagði Giggs á ITV eftir leik Englands og Slóveníu í gærkvöldi.

„Ég vorkenni Rooney. Undir lok síðasta tímabils var hann að spila aftarlega á miðjunni en síðan var hann orðin nía aftur og svo tía. Hann er örugglega svolítið ringlaður.“

„Ég sé hann ekkert sem leikmann sem getur bara spilað eina stöðu. Hann er svo hæfileikaríkur að hann getur spilað margar stöður og er reynslumikill,“ sagði Ryan Giggs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×