Fótbolti

Hannes: Kvaldist af stressi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór á æfingu með markvörðunum í Egilshöll í morgun.
Hannes Þór á æfingu með markvörðunum í Egilshöll í morgun. vísir/ernir
Hannes Þór Halldórsson gat ekki staðið vaktina í marki íslenska landsliðsins í fótbolta í gærkvöldi þegar það vann magnaðan endurkomusigur, 3-2, í undankeppni HM 2018.

Hannes sagði við Vísi eftir leikinn í gær að hann ætlaði sér að spila á sunnudaginn og það hafði ekkert breyst þegar blaðamaður hitti hann á landsliðsæfingu í morgun.

„Ég stend við það,“ sagði Hannes Þór, en Ögmundur Kristinsson varði mark Íslands í fjarveru Hannesar í gærkvöldi. En hvað amar að Hannesi?

„Ég fékk alvöru högg á lærið á sunnudaginn þegar ég spilaði á móti Bröndby. Það var minn eigin varnarmaður sem kom með fullorðins skriðtæklingu inn í lærið á mér. Það blæddi inn á vöðvann og mikil eymsli verið í lærinu.“

„Það tekur tíma að jafna sig á þessu. Ég var í kapphlaupi við tímann að ná leiknum gegn Finnlandi. Ég var stanslaust í meðhöndlun en eftir mikil fundarhöld með læknateyminu var úrskurðað ég gæti ekki spilað gegn Finnlandi en á móti kemur að ég verð algjörlega ferskur á sunnudaginn gegn Tyrklandi,“ sagði Hannes.

Það getur verið erfitt fyrir leikmenn að sitja á tréverkinu og fylgjast með félögum sínum reyna að sækja stig á síðustu mínútum leiksins. Það tókst heldur betur í gær með tveimur mörkum á ögurstundu.

„Þetta var rosalegt. Ég hélt að það væri ekki hægt að upplifa jafnsterka sigurvímu ef maður spilaði ekki leikinn. En síðan lá maður þarna í óþægindakuðung og kvaldist af stressi. Ég var miklu stressaðari en þegar ég spila leikina sjálfur,“ sagði Hannes.

„Þegar þessir drengir náðu að snúa þessu við sprakk út sigurvíma og ég réð mér ekki fyrir kæti. Þetta var alveg magnað. Auðvitað vill maður alltaf spila en þetta var öðruvísi upplifun og fór eins og best verður á kosið.“

„Það gerist ekkert oft að lið nái að snúa við leik í uppbótartíma og vinna hann. Það gerist kannski í eitt skipti af hverjum 500 en þarna datt þetta með okkur. Það var gaman að upplifa þetta,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×