Fótbolti

Gylfi: Gleymum þessum vikum aldrei

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi Þór svekktur í kvöld.
Gylfi Þór svekktur í kvöld. vísir/afp
„Þetta er erfitt. Við erum mjög svekktir með það hvernig við byrjuðum leikinn en ég held að Frakkarnir hafi verið of góðir fyrir okkur,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir tapið gegn Frakklandi í kvöld.

Hann var þá í viðtali við Pétur Marteinsson hjá sjónvarpi Símans.

„Taktískt voru þeir mjög skipulagðir. Þeir opnuðu völlinn og gerðu hann mjög stóran svo við þurftum að hlaupa mikið,“ segir Gylfi og bætti við að leikmenn hefðu verið þreyttir enda búið að vera mikið álag.

„Mér fannst vanta smá orku í leikmennina og mér leið í það minnsta þannig. Ég veit ekki hvernig strákunum leið en það tekur á að spila fjóra fimm leiki eins og við höfum verið að spila þá. Við höfum aldrei verið 2-0 eða 3-0 yfir og getað gert skiptingar og slakað aðeins á. Þetta var alltaf barátta fram á síðustu mínútu.

„Þetta var erfitt í dag. Frakkarnir eru komnir áfram og eiga það skilið. Við vorum langt frá okkar besta leik í fyrri hálfleik og gott lið eins og Frakkland refsar er það fær tækifæri. Í seinni hálfleik tókum við smá áhættu en í heildina getum við farið ánægðir frá Frakklandi.“

Miðjumaðurinn öflugi átti erfitt með að lýsa stuðningnum sem liðið fékk á EM.

„Þetta er ótrúlegt. Maður er eiginlega orðlaus yfir stemningunni og hvernig var tekið á móti okkur þó svo við höfum tapað 5-2. Þetta er búið að vera yndislegt og ég get ekki þakkað stuðningsfólkinu nógu mikið. Þetta eru nokkrar vikur sem við eigum aldrei eftir að gleyma. Það skiptir ekki máli hvaða velli við erum að spila á. Það er skemmtilegast að spila fyrir þessa áhorfendur. Þetta er ótrúlegt.“


Tengdar fréttir

Giroud: Vil hrósa íslenska liðinu

Olivier Giroud segir að leikurinn í kvöld hafi líklega verið hans besti leikur fyrir franska landsliðið á stórmóti.

Hannes: Okkur leið eins og við værum ósigrandi

"Ég held að allir geti borið höfuðið hátt eftir þessa keppni þó svo þessi leikur hafi tapast í kvöld,“ sagði ein af hetjum Íslands á EM, Hannes Þór Halldórsson.

Payet: Besti leikur okkar á EM

Dimitri Payet var magnaður í franska liðinu í kvöld og átti stóran þátt í sigri Frakklands á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×