Fótbolti

Gríðarlegur þrýstingur: Vildu ekki vera heima þegar allir kæmu heim

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Haukur og Þór ásamt félögum sínum við Moulin Rouge í dag.
Haukur og Þór ásamt félögum sínum við Moulin Rouge í dag. Vísir/KTD
„Þrýstingurinn var orðinn svo gríðarlegur að sjá allar þessar fréttir á vefnum ykkar að það var ekki annað hægt en að skella sér út. Við vildum ekki vera heima þegar allir kæmu heim,“ segir Þór Kjartansson sem er mættur ásamt vinum og vinnufélögum til Parísar.

Strákarnir ákváðu á sunnudaginn að skella sér út, flugu til Amsterdam í gær og tóku lestina þaðan til Parísar.

„Þetta er sögulegt móment og við ætlum að vera viðstaddir,“ segir Haukur B. Sigmarsson. Hópinn skipa starfsmenn True North, Securitas og Servio og skelltu strákarnir sér á Kabarett í gærkvöldi til að koma sér í gírinn.

„Þetta var svaðalegur kabarett, alveg æðislegur,“ segir Þór og Haukur bætir við að hann hafi komið mönnum í gírinn. Báðir eru bjartsýnir fyrir leikinn.

„Ég held það sé einhver víkingaandi sem fylgi okkur alla leið, ég hef ekki upplifað svona anda áður,“ segir Þór og Haukur spáir í spilin.

„Við vinnum 2-1 og Eiður slúttar þessu á 82. mínútu,“ segir Haukur sem sér boltann hafna niðri í horninu fjær.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×