Fótbolti

Strákarnir falla um átta sæti en eru samt bestir á Norðurlöndum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og strákarnir okkar eru sem fyrr besta landsliðið á Norðurlöndum.
Gylfi Þór Sigurðsson og strákarnir okkar eru sem fyrr besta landsliðið á Norðurlöndum. vísir/vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fellur um átta sæti á heimslista FIFA, en nýr listi var birtur í morgun.

Strákarnir eru nú í 31. sæti listans eftir að vera komnir upp í 23. sæti þegar listinn var síðast birtur í október.

Íslenska liðið átti ekki góðu gengi að fagna í október en það gerði jafntefli við Lettland á heimavelli, 2-2, og tapaði ytra gegn Tyrklandi, 1-0. Ísland var þá búið að tryggja sér sæti á EM 2016.

Þrátt fyrir að falla um átta sæti eru strákarnir okkar áfram besta landsliðið á Norðurlöndum en næstir okkar mönnum eru Danir sem eru í 35. sæti. Svíþjóð er í 45. sæti listans, Norðmenn í 46. sæti, Finnar í 56. sæti og Færeyjar í 89. sæti.

Ísland er í 21. sæti af Evrópuþjóðunum 53 og fellur um fjögur sæti á þeim lista.

Belgar eru komnir á toppinn í fyrsta sinn, Þjóðverjar eru í öðru sæti og Argentína, sem var í efsta sæti, fellur niður í það þriðja.

Hér má sjá allan listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×